Fótbolti - Silfur hjá 4.flokki kvenna

04.sep.2005  19:42

- Frábær árangur hjá stelpunum

Stelpurnar í 4.flokki kvenna mættu Blikastúlkum í úrslitaleik Íslandsmótsins á laugardaginn var. Þarna eru tvö bestu lið landsins í þessum aldursflokki á ferðinni sem hafa marga hildi háð undanfarin ár og unnið titla til skiptis. Það fór þó svo nú að Blikastelpur lyftu Íslandsbikarnum en stelpurnar okkar fengu silfrið.

Mikil spenna var fyrir leikinn og greinilegt að bæði lið áttu í vandræðum með að komast yfir mesta stressið. Blikar byrjuðu leikinn betur án þess þó að skapa sér færi en hvorugt liðið var að spila sérstaklega vel. Stelpurnar úr Kópavoginum náðu svo að skora eftir 20 mínútna leik eftir að hafa unnið boltann á vallarhelmingi ÍBV. Eftir markið komust ÍBV stelpurnar meira inn í leikinn og hefðu getað sett mark með smá heppni. Staðan í hálfleik 1-0 og ljóst að erfiður seinni hálfleikur var framundan.

Síðari hálfleikur hófst á svipuðum nótum og sá fyrri og var baráttan mikil. Blikastelpur náðu svo að bæta við öðru marki eftir að hafa sloppið í gegnum annars sterka vörn ÍBV liðsins. Eftir markið kom smá uppgjöf í ÍBV liðið og náðu Blikastelpur að bæta við tveimur mörkum áður en yfir lauk og lokatölur því 4-0 sem gefa þó hvorki rétta mynd af gangi leiksins né getu liðanna því Breiðablik hitti á góðan dag á meðan lítið gekk upp hjá stelpunum okkar. Með smá heppni hefði leikurinn getað þróast öðruvísi og áttu ÍBV stelpur t.d. að fá víti í stöðunni 2-0, þegar boltinn fór í hönd einnar Blikastelpu inni í teig, og hver veit hvað hefði gerst ef þær hefðu náð að minnka muninn ? En 2.sætið er frábær árangur og mega stelpurnar vel við una eftir sumarið. Þær unnu í A og B liðum á Símamóti Breiðabliks og þó svo að erfitt sé að tapa í úrslitaleik er samt sem áður góður árangur að lenda í 2.sæti.

Nú tekur við smá pása hjá stelpunum en æfingar byrja svo aftur í október eða nóvember og vonandi halda þær áfram að æfa jafnvel og þær hafa gert. Þetta er án efa einn efnilegasti árgangur ÍBV í langan tíma og nauðsynlegt að halda vel utan um þennan sterka hóp svo þær skili sér í meistaraflokk á komandi árum.