Fótbolti - Góður sigur hjá 4.flokki kvenna

21.júl.2005  09:42

Stelpurnar í 4.flokki kvenna hafa verið að gera það gott núna undanfarið í fótboltanum. Um síðustu helgi stóðu þær sig frábærlega á Símamóti Breiðabliks og í gær unnu þær stórsigur á Haukum í Íslandsmótinu. Stelpurnar eru því komnar upp í fjórða sæti deildarinnar en eiga tvo leiki til góða á Fjölni sem er í öðru sæti.

Stelpurnar byrjuðu af krafti í gær og eftir 8 mínútur skoraði Bylgja Dögg Sigmarsdóttir með góðu skoti úr teignum. Andrea Káradóttir skoraði annað mark leiksins og ÍBV á 15. mínútu úr vítaspyrnu og Bylgja Dögg bætti við sínu öðru marki tveimur mínútum síðar. Eva María Káradóttir bætti svo við marki fyrir hlé og staðan því 4-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var svipað uppi á teningunum. ÍBV stelpurnar voru skrefi framar en Haukastúlkur börðust þó af fullum krafti. Lovísa Jóhannsdóttir skoraði með góðu skoti úr teignum áður en Bylgja Dögg bætti við sínu þriðja marki með skoti af stuttu færi. Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði sjöunda mark ÍBV um miðjan hálfleikinn og Bylgja Dögg skoraði sitt fjórða mark og áttunda mark ÍBV áður en yfir lauk. Lokatölur 8-0 og góður sigur staðreynd.

Stelpurnar hafa staðið sig vel í sumar og hafa unnið alla þrjá heimaleiki sína mjög örugglega. Með sama áframhaldi munu þær tryggja sig áfram í úrslitakeppnina sem verður í lok ágúst. Næsti leikur þeirra er gegn ÍA á þriðjudaginn kemur hér á heimavelli.