Handbolti - 4.flokkur karla á Ítalíu

04.júl.2005  10:37

Nú eru strákarnir í 4.fl. karla staddir á Ítalíu og taka þar þátt í alþjóðlegu móti í handbolta. Ferðalagið gekk vel og komust allir á áfangastað heilir á húfi en þreyttir. Rútuferðin tók nokkuð á mannskapinn enda ekki á hverjum degi setið í rútu í tæpa níu klukkutíma og aðeins stoppað í 30 mínútur.

Mótið sjálft byrjaði ekki fyrr en í morgun og hafa strákarnir því gert sér ýmislegt til afþreyingar fram að því. Búið er að fara í vatnsrennibrautagarð sem lagðist vel í mannskapinn og allir komust óskaddaðir frá :-) Í gær fór liðið svo á ströndina sem var fín en þó var nokkuð hvasst.

Fyrsti leikur strákanna fór fram kl. 08.00 í morgun og spiluðu þeir við lið frá Monaco. Strákarnir stóðu sig ágætlega og náðu þokkalegu spili miðað við að vera ekki búin að æfi mjög stíft fram að ferðinni. Leikurinn var 2 sinnum 15 mínútur og höfðu þeir 3 marka forystu þegar 3 mínútur voru eftir. Þeir náðu því miður ekki að klára leikinn og endaði hann 12 -12 jafntefli. Jói þjálfari var nokkuð sáttur við sína menn og bjartsýnn á framhaldið. Næsti leikur verður svo klukkan 10.00 í fyrramálið.

Setningarhátíð mótsins verður haldin í kvöld með tilheyrandi skrúðgöngu og fjöri. Annars verður dagurinn í dag frjáls og geta stákarnir þá farið í búðir og keypt eitthvað sætt handa mömmu og pabba :-).

Annars gengur allt saman vel, liðið er farið að þekkja aðstæður vel og allir hafa sloppið við sólbruna. Hitinn hefur farið vaxandi dag frá degi og í gærkvöldi var um 37°hiti og í morgun ca 40°hiti að sögn Jóa sem er með mjög nákvæman innbyggðan termostat.

Við segjum frekari fréttir þegar þær berast frá Jóa á Ítalíu.