Fótbolti - Frábær sigur á KR

23.jún.2005  01:46

ÍBV stelpurnar unnu góðan sigur á KR stúlkum í 6.umferð Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu. ÍBV liðið hafði tapað tveimur heimaleikjum nú í sumar og var alls ekki inni í myndinni að tapa þeim þriðja enda Hásteinsvöllur verið ljónagryfja undanfarin ár. Með sigrinum er ÍBV komið með 9 stig af 18 mögulegum og eru sem stendur í 4.sæti deildarinnar.

Leikurinn var jafn framan af og fengu bæði lið færi til að skora og m.a. komst Hólmfríður Magnúsdóttir tvisvar ein gegn Maríu í marki KR sem náði að verja í bæði skiptin. ÍBV fékk mikið af færum í fyrri hálfleik en samt sem áður var það KR sem skoraði eina mark hálfleiksins og var þar að verki Vanja Stefanovic með skalla eftir að Anne Marberger í marki ÍBV hafði varið skot úr vítateignum. Anne þessi lék í marki ÍBV í fyrsta sinn í stað Danielle Hill sem fór til móts við enska u-19 landsliðið sem keppir í úrslitum Evrópumótsins á næstunni. Anne stóð sig mjög vel í leiknum og greinilegt að þar er sterkur markvörður á ferðinni.

Í seinni hálfleik kom svo berlega í ljós hvort liðið var betra. ÍBV hafði yfirburði á vellinum og spilaði vel. En illa gekk að skora og var fólk farið að vitna í leikinn gegn Breiðablik á dögunum þegar Kópavogsstúlkur fóru með sigur af hólmi eftir stanslausa sókn Eyjastúlkna. En sem betur fer gerðist það ekki því Elín Anna Steinarsdóttir náði að jafna metin 1-1 úr vítaspyrnu á 70.mínútu eftir að boltinn hafði farið í hönd eins leikmanna KR. Níu mínútum síðar kom Suzeanne Malone ÍBV svo yfir þegar hún kom boltanum framhjá Maríu í markinu sem átti hálf misheppnað úthlaup. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði svo gegn sínum gömlu félögum þegar hún vann boltann af varnarmanni KR og skilaði boltanum örugglega í bláhornið. Staðan 3-1 og örfáar mínútur eftir. Þó svo að KR hafi tekist að minnka muninn í 3-2 eftir klaufagang í vörn ÍBV þá dugði það ekki og 3-2 sigur því staðreynd.

Liðið lék í heildina vel í leiknum. Boltinn gekk ágætlega en illa gekk að nýta færin. En sigurinn var sanngjarn og er hann gott veganesti í leikina framundan.

Byrjunarlið ÍBV : Mark : Anne - Vörn : Pálína, Sigga Ása, Suzeanne R, Elena - Miðja : Fríða, Elín Anna, Rachel, Guðrún Soffía, Biddý - Sókn : Suzeanne M.

Erna Dögg kom svo inná fyrir Pálínu á 80.mínútu og Rakel Rut kom inn fyrir Elínu Önnu á 90.mínútu.