Fótbolti - FÓTBOLTADAGUR Í EYJUM Í DAG

23.jún.2005  10:26

Í dag er stór fótboltadagur í Vestmannaeyjum. Shellmótið í Eyjum er hafið og geta áhugasamir séð ungviðið, hvaðanæfa af af landinu, leika listir sínar með knöttinn í allan dag. Þarna getur að líta knattspyrnuhetjur framtíðarinnar og í dag eiga ekki ómerkari menn en Hemmi Hreiðars, Eiður Smári Guðjohnsen og fleiri pjakkar, frábærar minningar frá þessu móti sem enn lifa innra með þeim. Þetta er draumur í dós fyrir þessa stráka að taka þátt á Shellmóti í Eyjum. Ævintýri sem aldrei gleymist.

Setningarathöfn Shellmótsins verður svo í kvöld kl. 19 og er löng hefði fyrir því að bæjarbúar fjölmenni á athöfnina, sem gjarnan er stjörnum prýdd og alltaf glatt á hjalla.

Lokahnykkurinn í setningarathöfn Shellmótsins er svo leikur ÍBV gegn nýliðum Valsmanna, sem hafa unnið 5 leiki en tapað einum, gegn Íslandsmeisturum FH. Allir gestir á setningarathöfn Shellmótsins fá frítt á völlinn og hafa helstu styrktaraðilar meistaraflokksliðs karla tekið að sér að bjóða á völlinn. Þetta eru ESSO, Shell, Húsasmiðjan, Íslandsbanki, Landsbankinn, Vinnslustöðin, Ísfélagið, Vestmannaeyjabær og Shellmótsnefnd.

Nú væri gaman að slá aðsóknarmetið á Hásteinsvelli með topp-mætingu og vonandi eiga strákarnir okkar stórleik gegn Val.

Áfram ÍBV