Fótbolti - Fyrstu leikir 5.flokks karla í Íslandsmótinu

05.jún.2005  17:33

Á laugardaginn héldu strákarnir í 5.flokki til Reykjavíkur til að spila sína fyrstu leiki í Íslandsmótinu þetta árið. Eftirvæntingin var mikil enda strákarnir búnir að æfa vel í vetur og farnir að hlakka til að spila alvöru leiki.

A, B og C liðin léku gegn Valsmönnum að Hlíðarenda. A-liðið fékk heldur slæma útreið í leiknum og voru hreinlega ekki tilbúnir í leikinn. Valsmenn fengu alltof mikinn tíma með boltann á meðan okkar strákar gáfust of fljótt upp. Lokatölur voru 11-1 og geta strákarnir leikið mun betur en þeir gerðu og vita þeir það sjálfir.

B-liðinu gekk hins vegar betur. Þeir spiluðu mjög vel og skoruðu 6 mörk gegn 2 mörkum frá Val. Strákarnir spiluðu sig hvað eftir annað glæsilega í gegnum vörnina og hefði sigurinn getað orðið stærri.

C liðið bar einnig sigur úr býtum, 2-1 eftir skemmtilegan og spennandi leik. Strákanir spiluðu vel, börðust eins og ljón og áttu svo sannarlega skilið að vinna.

D liðið spilaði svo við Þrótt Reykjavík í Laugardalnum. Þeir áttu litla möguleika gegn sterku liði Þróttara sem reyndar tefldu fram strákum sem áttu heima í öðru liði en D liði.

Niðurstaðan því tveir sigrar og tvö töp sem er ágætt í fyrsta leik. Strákarnir eru staðráðnir að gera betur í næsta leik sem er gegn Leikni á þriðjudaginn hér á heimavelli í Vestmannaeyjum.