Fótbolti - Nauðsyn á öflugum stuðningi í Grindavík í kvöld

30.maí.2005  08:52

Í kvöld leika strákarnir okkar gegn Grindvíkingum í Grindavík kl. 19:15. Bæði lið hafa farið fremur illa af stað í Landsbankadeildinni í ár og eru án stiga, ásamt Þrótti, í botnsætunum. Það er því ljóst að það verður barist hart um þau stig sem í boði eru í kvöld og hvorugt liðið ætlar sér að verða án stiga fyrir 12 daga hléið sem verður gert á mótinu eftir þessa umferð.

Hjá ÍBV eru menn vel undirbúnir eftir erfiðan, en lærdómsríkan, leik í Kaplakrikanum gegn Íslandsmeisturum FH. Lewis Dodds tók þar út leikbann og stendur Guðlaugi þjálfara til boða í dag.

Í fyrra skildu liðin jöfn í Grindavík í fyrstu umferð Landsbankadeildarinnar, og var það fyrsta jafntefli liðanna í Grindavík. Magnús Már Lúðvíksson kom ÍBV yfir á 56. mínútu og Grétar Ólafur Hjartarson jafnaði með marki beint úr aukaspyrnu á 71. mínútu. Úrslitin voru Eyjamönnum súr, því þeir voru mun sterkari aðilinn í þessum leik og stuðningur Eyjamanna í stúkunni var hreint frábær.

Er það von okkar hjá ÍBV að sjá sem allra flesta stuðningsmenn gera sér ferð til Grindavíkur í dag og styðja okkar stráka til sigurs. Gefa tóninn ! Áskrifendur SÝN-ar munu fá að sjá leikinn beint, en við stuðningsmenn á fastalandinu setjumst ekki í sófana heldur mætum og styðjum okkar menn. Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn á að finna fyrir hinum einstöku stuðningsmönnum okkar. Við höfum á að skipa einu yngsta liði sem ÍBV hefur teflt fram í efstu deild í íslenskri knattspyrnusögu og það á mikið inni frá þeim leikjum sem við höfum fengið að sjá í fyrstu 3 umferðunum. Nú er bara að kreista þetta fram í strákunum með því að styðja vel við bakið á þeim.

Dómari leiksins í kvöld er Jóhannes Valgeirsson