Fótbolti - "Þörfnumst öflugs stuðnings gegn Keflvíkingum"

20.maí.2005  15:39

Á sunnudaginn kl. 14 er fyrsti heimaleikur ÍBV í Landsbankadeildinni þetta árið. Eftir slæm úrslit í 1. umferðinni gegn Fram, er vonast til þess að öflugur stuðningur og barátta strákanna innbyrði 3 stig gegn Keflvíkingum. "Við þörfnumst öflugs stuðnings gegn Keflvíkingum", segir prentsmiðjustjórinn og knattspyrnuráðsmaðurinn Gísli Hjartarson þegar ég vogaði mér að trufla hann við vinnslu sjómannadagsblaðsins nú í dag. "Strákarnir hafa notað vikuna vel í hópefli og eins að fara yfir það sem miður fór í Laugardalnum og líka það sem mjög miður fór. Strákarnir mæta vonandi tvíefldir í næsta leik og ég hef ákveðnar vísbendingar eftir að hafa talað við nokkra þeirra og vonast eftir að sjá baráttuglatt ÍBV lið á sunnudag" bætti Gísli við.

Keflvíkingar byrjuðu á því að tapa í fyrstu umferðinni gegn Íslandsmeisturum FH 0-3 og ljóst að þar á bæ ætla menn sér einnig að innbyrða stig, því bæði lið eiga erfiðan 3. leik framundan, ÍBV gegn FH í Kaplakrika og Keflavík gegn KR í Vesturbænum.