Fótbolti - Vekjaraklukkan hefur hringt

19.maí.2005  12:02

Það var hlutverk Framara s.l. mánudag, annan í hvítasunnu, að hringja vekjaraklukkunni í herbúðum ÍBV. Strákarnir hafa notað tímann vel og farið yfir það sem miður fór í þessum fyrsta leik Landsbankadeildarinnar og ætla sér að bæta um betur á sunnudaginn gegn Keflavík. Liðið er að slípast saman, en eins og komið hefur fram eru nokkrir leikmanna að koma heldur seinna inn í hópinn en við hefðum kosið, en því verður víst ekki breytt núna og fyrir því eru allnokkrar ástæður. Hjá ÍBV eru á ferð sprækir strákar í fínu formi og eiga miklu meira inni en við fengum að sjá á Laugardalsvelli, hvort sem talað er um þá sem nýkomnir eru eða hafa verið í áraraðir.

Þeir eru hundsvekktir strákarnir og það má segja að vekjaraklukkan hafi vakið þá af værum blundi s.l. mánudag því þeir hafa notað tímann vel síðan og munu undirbúa sig vel fyrir fyrsta heimaleik.

Páll Hjarðar tók út leikbann gegn Fram og verður klár á sunnudag og svo er að vona að Einar Hlöðver, James Robinson og Atli Jóhannsson hristi af sér meiðslin en Robinson á lengst í land eða ca. 2-4 vikur að því best er vitað.

Næsta umferð í Landsbankadeildinni er þannig:

Grindavík - FH, Þróttur - Fylkir, ÍBV - Keflavík, KR - Fram, Valur - ÍA.

Kristinn Jakobsson mun dæma á Hásteinsvelli.

Þá er bara að láta sjá sig á vellinum n.k. sunnudag, annan í Eurovision, kl. 14 og styðja strákana til sigurs gegn Keflvíkingum.