Fótbolti - Tvær stúlkur frá Everton til liðs við ÍBV

19.maí.2005  16:32

Stelpurnar í fótboltanum hafa fengið liðsstyrk fyrir baráttuna í sumar en tvær stúlkur frá Everton hafa gengið til liðs við ÍBV. Þetta er kærkomin viðbót við þunnskipaðan hóp okkar stúlkna og vonandi eiga þessar stelpur eftir að hjálpa okkur í baráttunni á toppnum.

Stúlkurnar sem hér um ræðir heita Danielle Hill 17 ára markvörður og Chantell Parry 17 ára miðvallarleikmaður. Þær koma eins og áður segir báðar frá Everton, en kvennalið Everton er mjög sterkt og með því leika m.a. Sammy Britton og Rachel Brown landsliðsmarkvörður Englands sem báðar hafa leikið með ÍBV.

Daniela og Chantell hafa báðar leikið landsleiki með yngri landsliðum Englands og spiluðu t.d. báðar með U-19 ára liðinu sem vann sér sæti í UEFA Championship úrslitakeppninni en hún fer fram dagana 20.-31.júlí í sumar. Stúlkurnar munu líklega ekki vera komnar í tíma fyrir leik okkar stelpna gegn FH á laugardaginn kemur en munu verða klárar í slaginn gegn Breiðablik á Hásteinsvelli þann 31.maí.

Ekki er loku fyrir það skotið að enn muni bætast í hópinn hjá stelpunum, en það mun skýrast á næstu dögum. Við bjóðum þær Chantell og Danielle velkomnar í ÍBV og vonum að þær eigi eftir að nýtast okkur vel á vellinum í sumar.