Fótbolti - Hörmuleg byrjun ÍBV í Landsbankadeildinni

17.maí.2005  09:51

Strákarnir okkar áttu mjög dapran dag gegn Fram á Laugardalsvellinum í 1. umferð Landsbankadeildarinnar. Reyndar þurfum við að líta aftur til ársins 1999 til að sjá síðast sigur í fyrstu umferðinni. Hinsvegar eiga leikmenn ÍBV sér engan felustað því frammistaðan var langt undir pari og er deginum ljósara að hrakspár sparkspekinga munu rætast ef þeir taka sig ekki saman í andlitinu.

ÍBV hóf leikinn mun betur en Fram og var ekki laust við að hægt væri að fá það á tilfinninguna að heimamönnum yrði pakkað saman og m.a. varði Gunnar Sigurðsson mjög vel frá Steingrími sem hafði komist einn innfyrir. 2-3 góðar sóknir Framara settu Eyjamenn aftur á móti algerlega á hælana og það var eins og sjálfstraustið sem örlaði fyrir í byrjun, færi út í hafsauga. Liðið hafði haldið boltanum vel innan liðsins og náðu stöku sinnum að opna annars óörugga vörn Framara uppá gátt. En að þessum stutta, góða, upphaskafla loknum, eyðilögðu Framarar allt miðjuspil ÍBV og tóku öll völd.

Framarar uppskáru mark á 35. mínútu þegar Ross McLynn skoraði eftir góðan undirbúning Ríkharðs Daðasonar, en dekkun á Ross brást algerlega og átti Birkir ekki mikla möguleika að koma í veg fyrir markið. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir Fram.

Í síðari hálfleik ætluðu Eyjamenn að reyna að bæta fyrir slakan fyrri hálfleik en eins og köld vatnsgusa kom 2. mark Framara á upphafsmínútum, þar sem Andri Fannar Ottósson, besti leikmaður Fram, skoraði eftir góða sókn. Tennurnar voru strax dregnar úr ÍBV sem sá nú fram á erfitt verk að jafna leikinn. Það reyndist svo vera og hefðu Framarar allt eins getað bætt við mörkum og megum við þakka fyrir að aðeins skalli Viðars Guðjónssonar undir lok leiksins rataði í mark okkar og lokatölurnar 3-0 fyrir Fram.

Þegar leið á leikinn voru gerðar nokkrar skiptingar og sá maður örla fyrir rétta neistanum við innkomu Atla Jóh sem þó virðist enn eiga inni, en þó sérlega sá maður baráttuandann þegar Einar Hlöðvar kom inn og lét virkilega finna fyrir sér. Hann sýndi akkúrat viðhorfið sem vantaði í þennan leik og barðist sem ljón.

Það er ljóst að strákarnir okkar þurfa að taka sig á fyrir næsta leik, gegn Keflvíkingum í Eyjum, en geta liðsins er mun meiri en við fengum að sjá í Laugardalnum í gær. Nokkra menn vantaði í þessum leik, en það er engin afsökun, því lið Fram er ekki í þeim styrkleika að það eigi ekki að vera hægt að ná fram góðum úrslitum ef menn leggja sig fram og spila af bestu getu. T.d. virkaði vörn Fram mjög óörugg ef þeir þurftu að eiga við hraða Steingríms og klæki Magnúsar, Jeffsy og Andy Sam. Lærdómurinn af þessum leik fyrir ÍBV liggur fyrir. Það vantaði baráttuandann og sjálfstraustið í þessum leik og Guðlaugur þjálfari mun örugglega nota tímann vel áður en liðið leikur sinn 1. heimaleik í sumar og koma strákunum í rétta gírinn. Getan er öll þarna til staðar og nú er að kreista hana fram og sækja stig.

Fram
Byrjunarlið: Fram (4-3-3): Gunnar Sigurðsson, Ross McLynn, Þórhallur Dan Jóhannsson, Kristján Hauksson, Gunnar Þór Gunnarsson (Kristófer Sigurgeirsson 69 mín), Hans Mathiesen (Viðar Guð. 79. mín) , Ingvar Ólafsson, Kim Norhölt, Andri Fannar Ottóson (Ómar Hákonar 84 mín), Andri Steinn Birgisson og Ríkharður Daðason (Fyrirliði)

ÍBV
ÍBV (4-3-3): Birkir Kristinsson(Fyrirliði), Andri Ólafsson, Ian Jeffs, Pétur Runólfsson, Magnús M. Lúðvíksson, Steingrímur Jóhannesson, Bjarni Geir Viðarsson (Bjarni Rúnar 81 mín), Matthew Platt (Einar Sig 68 mín), Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Lewis Dodds (Atli Jóh. 60 mín), Andrew Sam

Skemmtanagildi: 7
Maður leiksins: Andri Fannar Ottósson
Vallaraðstæður: Völlurinn þokkalegur
Veður: Rjómablíða en svalt
Áhorfendur: 808