Handbolti - Tap í Austurbergi

21.apr.2005  22:26
-Væl Júlíusar hafði tilætluð áhrif
Í dag áttust við ÍR og ÍBV í öðrum leik liðanna í undanúrslitum karla Íslandsmótsins í handknattleik. ÍBV hafði sigur í fyrsta leik liðanna í Vestmannaeyjum og með sigri í dag hefðu þeir tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu. En það hafðist ekki og því mætast liðin í oddaleik í Vestmannaeyjum á sunnudaginn og sigurliðið mætir Haukum í úrslitum Íslandsmótsins.
 
 ÍR byrjaði leikinn betur og náði strax forystu í leiknum. ÍBV liðið fann enga lausn á vörn ÍR-inga en þeir tóku Tite Kalandadze og Robert Bognar úr umferð frá fyrstu mínútu og riðlaði það sóknarleik Eyjamanna mjög. Breiðhyltingar komust í 4-0 en Eyjamenn náðu að minnka muninn í eitt mark um miðjan hálfleikinn.
 
Gríðarleg barátta var í leiknum og höfðu dómararnir í nógu að snúast en því miður stóðu þeir sig engan veginn. Greinilegt var að væl Júlíusar Jónassonar í fjölmiðlum eftir fyrsta leik liðanna hafði tilætluð áhrif því þeir Anton og Hlynur drógu vagn ÍR-inga löngum köflum í leiknum og héldu Eyjamönnum ávallt í hæfilegri fjarlægð. Leikmenn ÍBV geta þó vissulega gert betur en frammistaða þeirra félaga var engan veginn nógu góð í þessum leik. Í viðtali eftir fyrsta leik liðanna sagði Gunnar Gunnarsson að þegar lið leika svona vörn eins og ÍR gerði í dag þá verði oft mikið um peysutog og snertingar. Lítið var tekið á þessum brotum í dag og héngu ÍR ingar oft og mörgum sinnum í treyjum Eyjamanna án þess að nokkuð væri gert. Ótrúlegt var t.d. að sjá hversu mikið Ingimundur Ingimundarson fékk að gera án þess að vera rekinn útaf og er greinilegt að það er engin tilviljun að hann fór útaf með rautt spjald snemma í seinni hálfleik í leiknum úti í Vestmannaeyjum.
 
En aftur að leiknum. Staðan í hálfleik var 15-12 og var Ólafur Gíslason markmaður ÍR liðsins í miklu stuði og varði oft úr dauðafærum. Roland Eradze var hins vegar ekki í eins miklu stuði og undanfarið og munar miklu um það. Í seinni hálfleik var svipað uppi á teningunum. Um leið og ÍBV nálgaðist ÍR þá tóku dómarar til sinna ráða eða þá að markmenn ÍR liðsins lokuðu markinu. Leikmenn ÍBV fóru oft illa að ráði sínu þegar þeir voru fleiri inni á vellinum og klikkuðu á dauðafærum. Svo fór að ÍR hélt forystu sinni til enda leiks og lokatölur 33-29 ÍR í vil.
 
Ljóst er að leikurinn á sunnudaginn verður spennuþrunginn allan tímann. Bæði lið munu mæta brjáluð til leiks og baráttan verður engu minni heldur en í dag. Ef strákarnir okkar ná sínum eðlilega leik þá eiga þeir mikla möguleika á sigri og með samstilltu átaki leikmanna, aðstandenda og áhorfenda er allt hægt. Leikurinn á sunnudaginn hefst klukkan 16:15 og er nauðsynlegt að áhorfendur fylli íþróttahöllina og hvetji strákana til dáða.
 
Mörk ÍBV : Samúel 9, Beló 7, Tite 6, Kári 2, Robert 2, Davíð Þór 2 og Sigurður Ari 1. Roland og Jói stóðu vaktina í markinu og náðu sér ekki á strik.