Fótbolti - Tap gegn Val í deildarbikar

04.apr.2005  13:25
Stelpurnar í fótboltanum mættu í gær liði Vals í deildarbikar kvenna í knattspyrnu. Þessi lið voru einmitt í sérflokki síðasta sumar þar sem Valur varð Íslandsmeistari og ÍBV bikarmeistari. Valsstelpur hafa verið á miklu skriði í vetur enda með gríðarsterkt lið og landsliðsstelpur í nær öllum stöðum. ÍBV liðið hefur farið hægar af stað í sínum undirbúningi en eiga titil að verja í þessari keppni sem stelpurnar vilja ekki láta af hendi, og því var búist við spennandi og skemmtilegum leik.
 
Leikurinn var fjörugur og þróaðist þannig að Valsstelpur voru meira með boltann en ÍBV varðist vel og voru svo hættulegar fram á við. Það var svo Olga Færseth sem kom ÍBV stelpum yfir með skalla eftir hornspyrnu - sannarlega góð byrjun á leiknum. Eftir markið áttu Valsstelpur nokkrar hættulegar sóknir en ÍBV stelpurnar fengu líka sín færi og sluppu nokkrum sinnum í gegnum slaka vörn Vals. Það var einmitt úr einni skyndisókn sem Bryndís Jóhannesdóttir skoraði framhjá Guggu í marki Vals og staðan var 2-0 í hálfleik.
 
En þrátt fyrir góða stöðu í hálfleik voru menn passlega bjartsýnir fyrir síðari hálfleik. Liðið var þreytt og leikmenn að stríða við meiðsli, auk þess sem varamenn liðsins komu allar beint úr leik með 2.flokki kvenna. Valsstelpur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og eftir 15 mínútur höfðu þær skorað 3 mörk og staðan því orðin 3-2 Val í vil ! Þær bættu svo við tveimur mörkum og lokatölur leiksins því 5-2 fyrir Íslandsmeistarana, þrátt fyrir að stelpurnar okkar hafi átt nokkur færi til að bæta við mörkum.
 
Þrátt fyrir tapið þá geta stelpurnar verið sáttar með margt í leik sínum. Liðið skapaði sér mörg færi og varðist vel lengst af. Í seinni hálfleik náði Valur algjörlega tökum á miðjunni og fengu miðjumenn þeirra alltof mikinn tíma til að athafna sig. Þetta er eitthvað sem þarf að laga og kemur um leið og stelpurnar komast í betra from. Við sáum að getan er sannarlega til staðar en formið var ekki nógu gott til að klára svona leik. ÍBV er því með 3 stig eftir tvo leiki, en liðið sigraði Stjörnuna í fyrsta leik sínum. Næstu leikir liðsins eru gegn Breiðablik n.k. laugardag og svo gegn FH á sunnudaginn.
 
Byrjunarlið ÍBV í leiknum var þannig skipað : Mark - Nína (3.flokkur). Vörn - Rakel Rut, Sigga Ása, Pála, Elena. Miðja - Fríða, Elín Anna, Guðrún Soffía, Erna Dögg. Sókn - Biddý, Olga.