Handbolti - Drengirnir okkar unnu Þór 27-31

08.mar.2005  21:02
Nokkuð jafn og spennandi leikur.
Vinnum við sigur á hinu norðanliðinu á laugardag?
Ferð okkar drengja til Akureyrar í dag var vel heppnuð þar sem okkar drengir eru nú á heimleið með tvö stig í fartaskinu eftir sigur á Þór 27-31. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkar drengi og nú verðum við að halda áfram á sömu braut og laga það sem betur má fara. Leggja síðan allt í sölurnar í næsta leik gegn KA hér heima á laugardaginn.  Það væri ekki slæmt að taka bæði norðanliðin í sömu vikunni.  Með sigri á KA gætum við blandað okkur í toppbaráttuna í deildinni.  En munum að það er stutt í neðri helminginn ef við misstígum okkur.
 
Jafnræði var með liðunum lengstum í fyrri hálfleik þótt drengirnir okkar hefðu verið ávallt skrefinu á undan.  Liðin skildu jöfn 15-15 er gengið var til leikhlés.  Vörnin var ekki alveg að gefa sig í fyrri hálfleik miðað við undanfarna leiki og var það ein ástæðan fyrir því að við náðum ekki að hrista Þórsara af okkur.
 
 
 
Í þeim síðari voru okkar strákar ávallt tveim skrefum á undan Þórsurum og leiddu m.a. 20-22 og síðan 21-24.  Þeir náðu síðan mest sex marka forskoti 22-28 um miðjan seinni hálfleik.  Eftir það var sigur okkar drengja ekki í hættu og náðu þeir að innbyrða góðan sigur á erfiðum heimavelli Þórsara 27-31.
 
Þess má geta að okkar drengir brendu af 4 vítaköstum í þessum leik og verðum við að nýta þau í næstu leikjum ef við ætlum okkur sigur í þeim.
 
"Viktor Ragnarsson í handknattleiksráði fór með liðinu norður yfir heiðar og hann sagði í samtali við Eyjafréttir að leikurinn hefði verið slakur.  "Þetta var mjög erfiður leikur enda voru strákarnir að spila þriðja leikinn á sex dögum.  Leikmenn voru líklega þreyttir en það var jafnræði í fyrri hálfleik.  Við vorum kannski á undan að skora en þeir jöfnuðu alltaf jafn harðan.  En í seinni hálfleik náðum við 2-3 marka forystu og héldum henni nánast út leikinn.  Þetta var enginn glansleikur en mikilvæg stig," sagði Viktor að lokum."  www.eyjafrettir.is
 
Markaskorarar ÍBV voru:
Samúel Ívar Árnason 6 (sjá mynd til vinstri), Svavar Vignisson 5, Sigurður Ari Stefánsson 4, Davíð Þór Óskarsson 4 (sjá mynd uppi til vinstri), Tite Kalandadze 3, Robert Bognar 3, Grétar Eyþórsson 2, Zoltán Belaný 2, Kári Kristján Kristjánsson 1 og Andrija Adzic 1.
 
Jóhann Ingi Guðmundsson stóð vaktina í fyrri hálfleik og varði ágætlega.  Roland Eradze leysti hann af hólmi í þeim seinni og stóð einnig fyrir sínu.
 
 
 
 
 
Markakskorarar Þórs voru:
Árni Þór Sigtryggson 8, Aigars Lazdins 5, Bjarni Gunnar Bjarnason 5 (sjá mynd hér til vinstri), Cedric Ákerberg 2, Arnór Þór Gunnarsson 2, Sindri Viðarsson 2, Goran Gusic 1, Sindri Haraldsson 1 og Sigurður Brynjar Sigurðsson 1.
 
Mareks Skabeikis stóð vaktina mest allan leikinn í marki Þórs og varði ágætlega.