Fótbolti - Fótboltahelgi framundan hjá stuðningsmönnum ÍBV

01.mar.2005  19:54

Herrakvöldið hjá ÍBV-strákunum verður n.k. föstudag sbr. fyrri tilkynningar sem við höfum séð hér á síðunni og fer hver að verða síðastur að krækja sér í miða.  En það er fleira framundan en það eru tveir leikir í deildarbikarnum.  Á föstudag leikur liðið gegn Víkingum sem þurftu að bíta í það súra epli að falla í fyrra á meðan arfaslakir Framarar héldu sæti sínu á óverðskuldaðan hátt m.v. úrslitin í lokaumferðinni gegn Keflvíkingum, en það er önnur saga.  Strákarnir ætla að taka vel á því gegn Víkingum og mæta svo stálhressir á herrakvöldið um kvöldið.  Sem stendur er leikurinn settur á kl. 19 í Egilshöll á föstudag en við skulum sjá hvort það verði ekki einhver breyting á því þegar nær dregur en það hvíslaði  því lítil unghæna að leikurinn yrði eitthvað fyrr á ferðinni.

Á sunnudag leika strákarnir svo gegn Þór frá Akureyri í Reykjaneshöllinni kl. 14:30. 

Stuðningsmenn eru að sjálfsögðu hvattir til að mæta á þessa leiki og styðja okkar stráka og auðvitað forvitnast hvort þeir fylgi eftir hreint fínum leik gegn Fylki í fyrstu umferðinni.