Fótbolti - Ég var nokkuð ánægður með liðið í heild sinni

22.feb.2005  14:20
Guðlaugur Baldursson stýrði ÍBV í sínum fyrsta opinbera leik um helgina er strákarnir léku gegn Fylki í Reykjaneshöllinni.  Árangurinn þokkalegur, 1-1 jafntefli.  Báðum við hann að leggja aðeins frá sér skólakrítina og kennaraprikið og svara örfáum spurningum á skömmum tíma.  Hann hafði þetta að segja er hann var spurður um leikinn.
Hvað fannst þér um frammistöðu strákanna í fyrsta leiknum gegn Fylki ?
Ég var sáttur við margt í okkar leik sérstaklega varnarvinnu liðsins og baráttugleði leikmanna.
Það hljóta að hafa verið vonbrigði að missa niður síðbúið forskotið ?
Við viljum að sjálfsögðu vinna hvern leik sem við förum í, auðvitað er svekkjandi að fá á sig mark svo seint í leiknum en á þessum tíma ársins reynum að skoða alla þætti leiksins ekki bara úrslitin. Í leiknum voru margir jákvæðir punktar en aðrir þættir sem við þurfum að gera betur.
En hvernig fannst þér andstæðingurinn í leiknum ?
Mér finnst Fylkisliðið gott, vel spilandi lið með marga mjög efnilega stráka.
Nú var Jeffsy með í þessum leik. Hvenær koma hinir útlendingarnir ?
Það er ekki komin dagsetning á það ennþá. Þeir verða allavega með okkur í æfingaferðinni í Portúgal í byrjun apríl.
Þarna voru ungir strákar að koma inn eins og Adólf, Sæþór og Hrafn.  Hvað viltu segja um leik þeirra á sunnudag ?
Ég var nokkuð ánægður með liðið í heild sinni og þessir strákar sem þú nefnir skiluðu allir góðu verki.