Fótbolti - Herrakvöldið í Reykjavík nálgast

21.feb.2005  13:50

Takmarkaður fjöldi miða stendur til boða

Stuðningsmannaklúbbur ÍBV á höfuðborgarsvæðinu ætlar enn eitt árið að styðja við bakið á fótboltastrákunum okkar í ÍBV og standa fyrir herrakvöldi sem tekist hefur einstaklega vel upp undanfarin ár.

 

Herrakvöldið í ár verður haldið hátíðlegt föstudaginn 4. mars næstkomandi í félagsheimili HK, Digranesi.  Veislunni í ár stýrir Þorsteinn Gunnarsson, íþróttafréttamaður, en ræðumaður kvöldsins er Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður.  Happadrættið fræga verður á sínum stað, uppboð á skemmtilegum fótboltavarningi auk annarra skemmtilegra uppákomna.

 

Á matseðlinum verður ljúffengur lambaframpartur frá SS sem eyjamaðurinn Kristó á Café Borg ætlar að sjá um og koma því ofan í Eyjamenn í Digranesi þann 4. mars næstkomandi.

 

Miðaverð verður sem fyrr einn helsti brandari ársins, eða kr. 1.500 fyrir frábært kvöld með mat og öllum græjum.  Allur ágóði þessa kvölds rennur ætíð beint til leikmanna sem hafa notað innkomuna til þessa til að greiða inn á æfingaferðina sína sem farin er á vorin en sú ferð er að mestu leiti greidd af þeim sjálfum. Þeir sem eru yfirsig spenntir í miða geta pantað þá hjá Jóni Viðari á keisarinnsimnet.is eða í síma 864 2339.  – Athugið að það er takmarkað miðaframboð – þannig að fyrstir koma fyrstir fá.