Fótbolti - Faxaflóamótið hófst um helgina

30.jan.2005  20:37
Kvennalið ÍBV í knattspyrnu lék sína fyrstu leiki á þessu tímabili nú um helgina þegar Faxaflóamótið hófst. Liðið sem hampaði bikarmeistaratitli á síðasta tímabili, hefur fengið nýjan þjálfara en Sigurlás Þorleifsson hefur sem kunnugt er tekið við stjórn liðsins af Heimi Hallgrímssyni.
 
Væntingar fyrir þessa leiki voru í lágmarki þar sem hópurinn var frekar þunnskipaður, en m.a. vantaði þær Sigríði Ásu Friðriksdóttur og Írisi Sæmundsdóttur í vörnina. Auk þess hefur liðið tiltölulega nýhafið æfingar af fullum krafti, nokkuð seinna en önnur lið. Litið er á þetta mót sem kærkomna æfingu fyrir komandi leiki í deildarbikar þar sem við eigum titil að verja.
 
En þá að leikjunum sjálfum. Á laugardaginn var leikið gegn Breiðablik sem hefur bætt við sig mikið af mannskap frá því á síðasta tímabili. Skemmst er frá því að segja að Breiðablik vann 5-1 sigur, sem var fullstór miðað við gang leiksins en leikmenn ÍBV áttu nokkur góð marktækifæri í leiknum sem Þóra B. Helgadóttir landsliðsmarkvörður sá við. Mark ÍBV skoraði markadrottningin Olga Færseth.
 
Lið ÍBV : Markvörður - Karitas. Vörn - Elena, Rakel Rut, Mhairi og Erna Dögg. Miðja - Sara, Lind, Guðrún Soffía og Hólmfríður. Sókn - Olga og Bryndís. Varamenn - María og Pálína.
 
Sara meiddist í leiknum og er óttast að liðband í hné hafi slitnað en vonandi verður hún ekki lengi frá. Hólmfríður og Guðrún Soffía léku þarna sinn fyrsta leik í ÍBV búningnum og vonandi að þær verði drjúgar fyrir okkur á komandi misserum.
 
Svo í dag, sunnudag, var leikið gegn Stjörnunni. Stjarnan hefur alltaf reynst okkur erfiður andstæðingur og varð ekki breyting á því í dag þar sem Stjarnan fór með sigur af hólmi í miklum markaleik, 6-4. Vörn ÍBV átti ekki góðan dag og því fór sem fór. Mörk ÍBV skoruðu Biddý 2, Olga og Hólmfríður. Því miður höfum við ekki upplýsingar um byrjunarliðið í dag.
 
Næstu leikir liðsins eru 12. og 13. febrúar en þá mæta stelpurnar liðum Keflavíkur og Hauka. Við skulum vona að fall sé fararheill og að úrslit næstu leikja verði hagstæðari en nú um helgina.