Handbolti - Vigdís, engu gleymt

11.jan.2005  22:47

Í kvöld fór fram í Kaplakrika í Hafnarfirði leikur ÍBV og FH í efstu deild kvenna í handknattleik. Fyrir leikinn voru stelpurnar okkar í 2.sæti deildarinnar en FH í því 5. Veikindi settu strik í reikninginn hjá báðum liðum, Alla Gorkorian og Florentina Grecu spiluðu ekkert með ÍBV í dag og í lið FH vantaði hina bráðefnilegu skyttu Dröfn Sæmundsdóttur og Björk Ægisdóttur. Fór svo að ÍBV sigraði í þessum leik með 37 mörkum gegn 29 eftir að hafa leitt í hálfleik 20-11. Góður sigur þar í höfn og tvö mikilvæg stig í toppbaráttunni komin í sarpinn.

FH stelpurnar byrjuðu mun betur í leiknum og komust í 3-0 og virtist sem Eyjastelpur væru ekki mættar til leiks þessar fyrstu mínútur. En það voru bara byrjunarörðugleikar því hægt og bítandi sigu Eyjastelpur fram úr og stungu hreinlega af um leið og vörnin fór að smella saman. Guðbjörg Guðmannsdóttir fór mikinn í hraðaupphlaupum á þessum kafla og komst ÍBV m.a. í 14-6. Zofie Pazstor var einnig öflug og þær drógu vagninn ásamt Vigdísi Sigurðardóttur, sem lék í markinu eftir tæplega tveggja ára hlé í forföllum Florentinu. Vigdís kom sterk inn í liðið og átti skínandi leik, og gladdi það hjörtu Eyjamanna á áhorfendapöllum að sjá þennan frábæra leikmann aftur í Eyjamarkinu. En þegar liðin gengu til hálfleiks var staðan 20-11 ÍBV í vil og sigurinn nánast í höfn.

Seinni hálfleikurinn þróaðist á svipaðan veg og sá fyrri. ÍBV liðið hafði örugga forystu og voru mun sterkari en vængbrotnar Hafnarfjarðarstúlkur. Sóknarleikur þeirra var í molum gegn ágætri Eyjavörn og náðu Eyjastelpur mest 13 marka forystu, 30-17 þegar 15 mínútur voru eftir. Þá slökuðu stelpurnar okkar á en héldu samt öruggri forystu, lokatölur voru 37-29 og góður sigur í höfn.

Þessi leikur var ágætlega leikinn af hálfu ÍBV. Vörnin small saman á köflum sem skilaði okkur góðum hraðaupphlaupum. Einnig var sóknarleikurinn ágætur, en vissulega geta stelpurnar betur en þessi leikur var þó mikil framför frá leiknum gegn Val um síðustu helgi. En staðreyndin er góður sigur á útivelli og geta stelpurnar okkar í heildina verið ánægðar með leikinn. Næsti leikur er svo gegn Stjörnunni á laugardaginn kemur í Vestmannaeyjum kl. 14:00 og þá er nauðsynlegt að áhorfendur styðji vel við bakið á stelpunum, en Stjarnan stendur í ströngu þessa dagana í Evrópukeppni og verður án efa erfiður andstæðingur.

Markaskorarar ÍBV : Zofie 10, Guðbjörg 9, Darinka 6, Eva Björk 4, Tanja 4 og Ester 2. Vigdís átti eins og áður segir góðan leik í markinu og varði 17 skot.

Markahæstar hjá FH : Gunnur Sveinsdóttir 10 og Guðrún Drífa Hólmgeirsdóttir 5.