Handbolti - Bikarmeistararnir slegnir út!

14.des.2004  15:25

ÍBV náði að tryggja sér sæti í undanúrslitum SS-bikarsins í gær, með sigri á bikarmeisturum KA 27-24, en leikið var á Akureyri.  Það gekk ekki þrautarlaust að leika þennann leik þar sem að leiknum hafði verið frestað nokkrum sinnum vegna þess að ekki var hægt að fljúga norður.  Í gær var ákveðið að leigja Fokker vél og fór stór hópur af stuðningsmönnum með liðinu í gær og hafði það sitt að segja um stemninguna á leiknum. 

Leikurinn var vel leikinn að hálfu okkar manna og var sigurinn í sjálfu sér ekki í hættu, vorum yfir í hálfleik 13-11.  Þegar að tíu mínútur voru eftir var staðan 23-17 og sigurinn nánast í höfn.  KA menn náðu aðeins að klóra í bakkann undir lokin en það dugði ekki, öruggur sigur og bikarmeistararnir úr leik. 

Það þarf ekki að fara mörkum orðum um markvörsluna, hún var frábær, þrjú fyrstu vítin varin og það gaf svo sannalega tóninn fyrir framhaldið. En góð markvarsla kemur oft þegar vörnin stendur sig og í þessum leik áttu KA menn ekkert svar við frábærum varnarleik okkar manna. Tröllin á miðjunni stoppuðu Norðanmenn hvað eftir annað og það sem fór í gegn það tók Roland. Breytingin á liðinu frá því í fyrra er ótrúleg en þá var liðið að setja hátt upp í 40 mörk í leik og fá á sig annað eins. Nú er það varnarleikurinn sem er aðall liðsins og virðist það henta okkar mönnum vel. 

Sóknin var einnig í góðum málum í gær, leikurinn við Val hjálpaði eflaust eitthvað til því líkt og í Vals leiknum þá tóku þeir Tite úr umferð. Að þessu sinni hafði það reyndar lítið að segja því Sigurður Ari Stefánsson og Samúel Ívar fóru á kostum. Ekki má gleyma Svavari á línunni en hann barðist eins og ljón og í 5-1 vörninni stóð hann sig frábærlega. Robert stjórnaði sóknarleiknum eins og herforingi og er hann greinilega að komast í sitt besta form. Liðið spilaði í heild sinni mjög vel og með þessu áframhaldi fer liðið alla leið bæði í deild og bikar.

Fjölmargir stuðningsmenn fóru með liðinu norður og eiga þeir hrós skilið. Þeir, líkt og liðið, komu sáu og sigruðu. Það var strax mjög góð stemming í hópnum og fór ekkert á milli mála að þarna voru sigurvegarar á ferð. Sjálfstraustið var mikið í hópnum og allir höfðu trú á því að við gætum sigrað bikarmeistarana á þeirra eigin heimavelli.

Með þetta lið, þennan stuðning og sigurviljan þá er okkur allir vegir færir.

Mörk ÍBV: Samúel Ívar Árnason 8, Sigurður Ari Stefánsson 5, Svavar Vignisson 4, Robert Bognar 4, Sigurður Bragason 3, Tite Kalandze 2, Andreja Adzic 1.